Þróunarstarf
Skólapúlsinn er hugsaður sem hluti af þróunarstarfi skóla. Með Skólapúlsinum geta skólar fengið réttmæt gögn til að vinna með í þróunarstarfi bæði við kortlagningu, mat og endurmat. Nýnæmi verkefnisins felst fyrst og fremst í samræmingu á mati á innri þáttum skólastarfsins, svo sem líðan nemenda, virkni þeirra og aðstæðum í skólanum í gegnum sjálfvirkt kannanakerfi. Sjálfvirkni kerfisins tekur til bæði söfnunar og úrvinnslu gagna sem er nýnæmi við sjálfsmat skóla. Val á spurningakvörðum tekur mið af íslenskum aðstæðum, þar er byggt á nýjum upplýsingum sem fengist hafa með PISA rannsóknunum á Íslandi.
Markmið Skólapúlsins er að efla rannsóknir og þekkingu á þáttum í fari nemenda og einkennum skólastarfsins. Yfir tíma safnast mikið magn dýrmætra upplýsinga sem rannsakendur á sviði menntamála geta nýtt. Slíkar niðurstöður draga fram sérkenni skólans og geta upplýst á hvaða sviðum skólinn þarf að beita sér til að bæta skólastarfið og auka bæði árangur og vellíðan nemenda sinna.
Ekkert kerfi í dag býður uppá samanburð við landsmeðaltal. Ekkert þeirra er langtímamiðað með sama hætti (þ.e. sömu þættir mældir frá mánuði til mánaðar og frá ári til árs). Skólapúlsinn getur leyst af hólmi þessar stöku kannanir og virkað sem mikilvæg upplýsingaveita í heildstæðu sjálfsmati. Mikil hagræðing er í notkun kerfisins þar sem framkvæmd er sjálfvirk og úrlausn niðurstaðna og birting þeirra er einnig sjálfvirk.