Saga Skólapúlsins
Skólapúlsinn (sjá skolapulsinn.is/um) byrjaði sem samstarfsverkefni Almars M. Halldórssonar, þáverandi verkefnisstjóra PISA hjá Námsmatsstofnun, Kristján Ketils Stefánssonar, þáverandi verkefnisstjóra hjá rannsóknanámsbraut Kennaraháskóla Íslands, og Brians Suda tölvunarfræðings. Í fyrstu var einungis boðið upp á kannanir fyrir innra mat grunnskóla og eftir forprófanir var byrjað á nemendakönnun í 6. – 10. bekk skólaárið 2008-09. Þá óskuðu 32 skólar eftir þátttöku í könnuninni sem þá var rekin sem verknúmer innan nýstofnaðs Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Árið 2009 fékkst frumherjastyrkur hjá Tækniþróunarsjóði til að fullvinna fyrstu útgáfu af upplýsingakerfi Skólapúlsins, en það sama ár fékk verkefnið önnur verðlaun í hugmyndasamkeppni Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands, Uppúr skúffunum.
Fjöldi þátttökuskóla tvöfaldaðist skólaárið 2009-10 og í kjölfarið var aðstandendum Skólapúlsins gert að færa rekstur verkefnisins frá Háskóla Íslands yfir í aðskilið rannsóknafyrirtæki sem þá hét Skólapúlsinn ehf. (síðar Vísar rannsóknir ehf.). Þátttaka í nemendakönnun 6. – 10. bekkjar hélt áfram að aukast jafnt og þétt þar til að 121 skóli tók þátt skólaárið 2013-14, eða um 70% grunnskóla á Íslandi. Frá 2014 hefur þátttaka grunnskóla haldist nokkuð stöðug. Skólapúlsinn hefur frá upphafi verið rekinn með virku samráði við notendur og hafa vorfundir verið haldnir með notendum árlega frá upphafi þar sem innihald kannana og framkvæmd er breytt í ljósi breyttra áherslna í innra mati skólanna. Fljótlega komu fram óskir um að einnig yrðu útbúnar kannanir fyrir foreldra, starfsfólk og yngri nemendur grunnskólanna. Árið 2012 fengu aðstandendur Skólapúlsins verkefnastyrk hjá Tækniþróunarsjóði til þriggja ára til að þróa upplýsingakerfið áfram þannig að það næði bæði til innra mats bæði grunn- og leikskóla og til ytra mats sveitarfélaga. Ytra mats hlutinn hlaut nafnið Skólavogin og var þróuð í samstarfi við samband sveitarfélaga og Reykjavíkurborg (sjá skolavogin.is).
Foreldrakönnun og starfsmannakönnun grunnskóla var tekin í notkun skólaárið 2012-13 og ári síðar hófst fyrirlögn á starfsmannakönnun leikskóla og nemendakönnun framhaldsskóla. Skólaárið 2014-15 hófst foreldrakönnun leikskóla. Síðasta almenna könnun sem tekin var í notkun var könnun fyrir nemendur í 1. – 5. bekk grunnskóla skólaárið 2017-18 sem fimm árum síðar var færð frá vorönn yfir á haustönn og takmörkuð við 2. – 5. bekk að ósk notenda. Þátttaka á leik- og framhaldsskólastigi hefur aukist jafnt og þétt og náðu kannanir Skólapúlsins til rúmlega þriðjungs leikskóla og um helmings framhaldsskóla skólaárið 2020-21.
Skólaárið 2022-23 var boðið uppá foreldrakönnun og starfsmannakönnun í leikskólum, tvær nemendakannanir, foreldrakönnun og starfsmannakönnun í grunnskólum og nemendakönnun í framhaldsskólum. Þær eru lagðar fyrir árlega á samræmdan hátt en reynslan hefur verið að flestir skólar velja að taka þátt í mismunandi tegundum kannana annað hvert ár. Undantekning frá þessu er nemendakönnun 6. – 10. bekkjar þar sem að flestir grunnskólar taka þátt í henni árlega. Nemendakönnun 6. – 10. bekkjar er einnig frábrugðin öðrum könnunum að því leyti að hún fer fram nokkrum sinnum yfir árið í eins mörgum 40 nemenda líkindaúrtökum og hægt er að búa til úr nemendafjölda skólans. Skólastjórnendur stærstu skólanna fá þar með punktstöðu og opin svör um virkni, líðan og skóla- og bekkjaranda í skýrslu sem uppfærð er mánaðarlega alla 9 mánuði skólaársins.
Fyrstu gerðir kannananna voru búnar til eftir ítarlega heimildavinnu sem unnin var af starfsfólki Skólapúlsins sem og ráðgjöf frá fræðafólki við Menntavísindasvið HÍ. Notkun hófst að loknum undirbúningsmælingum, forprófunum og tölfræðilegri athugun á áreiðanleika og réttmæti mælinganna. Kannanirnar hafa tekið þó nokkrum breytingum frá ári til árs eftir vorfundi með notendum. Fyrstu árin var aðallega um styttingar að ræða þar sem sum mælitækin sem stungið var upp á reyndust ekki nauðsynleg og höfðu neikvæð áhrif á svarhlutfall. Ýmsar breytingar á framkvæmd hafa orðið á tímabilinu, s.s. talgervilsstuðningur, SMS áminningar, raddskilaboð í síma, opin svör vistuð aðskilið til að tryggja nafnleynd og rof á milli persónuupplýsinga og svara við upphaf svörunar, svo eitthvað sé nefnt.
Engar persónuupplýsingar eru geymdar í gagnasafni Skólpúlsins og ýmsar leiðir hafa verið þróaðar til að tryggja að ekki sé unnt að nota útilokunaraðferð við að finna svör einstaklinga í fámennum skólum. Hver skóli hefur framkvæmt gagnasöfnunina með notkun upplýsingakerfis Skólapúlsins ásamt leiðbeiningum og stöðluðum upplýsingabréfum til nemenda, foreldra og starfsmanna. Gögnin sjálf eru eign skólanna en allir skólastjórnendur hafa gefið rannsóknarfyrirtækinu leyfi til að miðla gögnunum í fræðilegum tilgangi svo lengi sem tryggt er að ekki sé hægt að rekja niðurstöðurnar aftur til viðkomandi skóla.
Gagnasöfnunar-, úrvinnslu- og miðlunarkerfi Skólapúlsins hafa frá upphafi verið forrituð frá grunni sem býður þar af leiðandi uppá meiri sveigjanleika en þekkist í almennum kannanakerfum. Árið 2022 störfuðu fjórir starfsmenn hjá fyrirtækinu, framkvæmdastjóri, fjármálastjóri og tveir tölvunarfræðingar.