Aðalsíða » Um vefkerfið » Markmið

Markmið

Öll börn eiga skilið að mennta sig og alast upp í góðu skólaumhverfi. Við trúum því að námsmat í formi hárra einkunna sé ekki eini mælikvarðinn á gott skólastarf. Þess vegna höfum við þróað Skólapúlsinn.

Að útvega skólastjórnendum og skólaskrifstofum áreiðanleg, langtímamiðuð, samanburðarhæf og aðgengileg gögn um mikilvæga þætti í skólastarfinu.

Þessu markmiði hefur verið náð með þróun nýrra leiða í gagnasöfnun og miðlun gagna til notenda. Það sem gerir þetta kleift er gott tölvulæsi og góður aðgangur nemenda að veraldarvefnum jafnt í skólum sem og heima. Milliganga umsjónarmanns í skólunum leiðir til þess að nemendahópurinn á kost á að gefa regluleg svör við þeim spurningalista sem lagður er fyrir hverju sinni. Þar sem að spurningalistinn er lagður fyrir mánaðarlega fyrir lítið úrtak er hægt að skoða þróun einstakra þátta yfir langan tíma. Sjálfsmatið er því langtímamiðað eins og kveðið er á um í aðalnámskrá grunnskóla. Þátttaka margra skóla víðsvegar að af landinu gefur möguleika á að birta í hverjum skóla feril landsmeðaltals. Með þessu verða gögn hvers skóla samanburðarhæf en það er grunnur þess að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um viðbrögð í einstökum tilvikum.

Að þátttaka í Skólapúlsinum krefjist engra námskeiða og valdi engum meiriháttar truflunum í daglegu starfi skólanna.

Rekstur skóla er margþættur og röskun í daglegu starfi dregur úr möguleikum á að koma hverjum og einum nemenda til hámarks þroska. Jafnframt er það reynsla margra skólastjórnenda að fjárfesting í nýjum tæknilausnum hefur oft í för með sér aukakostnað í formi námskeiða, ráðgjafar, umsýslu innan skóla o.s.frv. Skammvinnur líftími margra slíkra tækninýjunga felur því í sér að dýr fjárfesting í þjálfun starfsfólks er unnin fyrir gýg. Þessu markmiði er náð með því að búa til kerfi sem lágmarkar þá vinnu sem stjórnendur, kennarar og rekstraraðilar Skólapúlsins þurfa að leggja fram án þess þó að ganga á gæði þeirra gagna sem safnað er.

Að byggja upp gagnabanka sem mun með tímanum opna möguleika fyrir rannsóknir á sviði kennslu- og uppeldisfræða.

Möguleikar eru fólgnir í rannsóknum og gerð úttekta á stöðu einstakra þátta á landsvísu til stefnumótandi ákvarðanna.