Um vefkerfið
Öll börn eiga rétt á menntun í góðu skólaumhverfi (sjá https://barnasattmali.is). Við trúum því að námsmat í formi hárra einkunna sé ekki eini mælikvarðinn á gott skólastarf. Þess vegna höfum við þróað Skólapúlsinn.
Skólapúlsinn er upplýsingakerfi sem veitir skólastjórnendum stöðugan aðgang að nýjum upplýsingum sem aflað er um þætti sem tengjast virkni nemenda og líðan þeirra í skólanum og um skóla- og bekkjaranda. Niðurstöður um stöðu nemenda í 6.-10. bekk eru bornar saman við niðurstöður fyrri mælinga í skólanum og við landsmeðaltal sem gefur skýrar vísbendingar um þróun mála í skólanum og stöðu nemenda í skólanum miðað við nemendur í öðrum skólum í landinu. Val á mælitækjum og forritun vefviðmóts hófst í byrjun árs 2008 og forprófanir fóru fram í apríl og maí það ár. Skólaárið 2008-2009 var fyrsta ár Skólapúlsins í notkun. Sjálfkrafa er skilið á milli nafns nemanda og svara þegar nemandi hefur svörun spurningalistans. Því er engin leið að rekja svörin aftur til viðkomandi einstaklings eða tengja svör einstaklinga á milli skólaára. Innihald spurningalistans er endurskoðað af notendum kerfisins á árlegum samráðsfundi sem haldinn er í lok hvers skólaárs. Endurskoðunin tekur mið af breyttum áherslum í skólastarfi, þróun tungumálsins og nýlegum rannsóknarniðurstöðum. Skólarnir nota upplýsingakerfið til að uppfylla lög um innra mat skóla þar sem kveðið er á um kerfisbundna upplýsingasöfnun frá nemendum, foreldrum og starfsfólk til mats á gæðum skólastarfs. Skólastjórnendur hafa jafnframt veitt leyfi til að heildartölur úr upplýsingakerfinu séu notaðar í fræðilegum tilgangi svo lengi sem nafnleynd skóla sé tryggð.