Aðalsíða » Grunnskólar » Yngri nemendur

Yngri nemendur

Nemendakönnunin fyrir nemendur í 1. –  5. bekk er lögð fyrir alla nemendur í viðkomandi bekkjum í apríl ár hvert. Þetta er gert til að 1. bekkingar séu komnir með reynslu af skólastarfinu áður en þeir eru spurðir út í viðhorf þeirra til skólans. Niðurstöðum er skilað í byrjun maí.  Könnunin er með mynda- og talgervilsstuðningi. Nú er könnunin á íslensku og ensku. Kostnaður við þátttöku er þriðjungur af verði hefðbundinna kannana.

Spurningarnar í þessari könnun eru voru upprunalega búnar til af McKenna og Kear (1990) en eru hér notaðar með góðfúslegu leyfi fyrsta höfundar. Forprófun könnunarinnar var gerð vorið 2017 og fyrsta fyrirlögn fór fram árið 2018. Tölurnar úr fyrstu fyrirlögn verða notaðar til viðmiðunar og því mun talan fimm standa fyrir dæmigerðan nemanda skólaársins 2017-18 næstu 5-10 ár héðan í frá.

Könnunin inniheldur tvo matsþætti:

  1. Ánægja af lestri utan skólans (5 spurningar)
  2. Ánægja af lestri í skólanum (5 spurningar)

Valið á spurningum er endurskoðað árlega að vori á samráðsfundi með notendum kerfisins.

Framkvæmd könnunar

1. Upplýsingar til foreldra og neitanir

Tengiliður Skólapúlsins tilkynnir foreldrum um þátttöku nemenda í Skólapúlsinum. Fylgt er reglum skólans um þátttöku nemenda í skoðanakönnunum þar sem að engum persónuupplýsingum er safnað. Skólapúlsinn mælir með að í upphafi árs sé sent út bréf í tölvupósti til foreldra/forráðamanna til upplýsingar um að skólinn hyggist leggja fyrir spurningalista með notkun Skólapúlsins. Hægt er að nálgast bréfið og prenta það út hér fyrir neðan. Æskilegt er að foreldrar séu upplýstir um verkefnið áður nemendalistinn er sendur inn. Skólinn sér um að þeir nemendendur sem ekki fá að taka þátt vegna neitunar foreldra séu ekki með í nemendalistanum sem sendur er inn í upphafi skólaársins. Ef foreldrar neita eftir að nemendalistinn hefur verið sendur inn er viðkomandi nemendakóða einfaldlega hent þegar hann berst skólanum.

Foreldrabréf fyrir nemendakönnun yngri barna (PDF)

Foreldrabréf fyrir nemendakönnun yngri barna (Word)

Foreldrabréf fyrir nemendakönnun yngri barna (enska PDF)

Foreldrabréf fyrir nemendakönnun yngri barna (enska Word)

2. Upplýsingar sem sendar eru til Skólapúlsins í upphafi árs:*

Nemendalisti skólans í 1.-5. bekk er sendur inn í Skólapúlsinn í einu Excelskjali án auðra raða einu sinni á ári. Innsendingin þarf að hafa farið fram 5 virkum dögum fyrir byrjun aprílmánaðar til að könnunin geti farið fram. Í skjalinu skal koma fram:

  1. Fullt nafn (t.d. Jóna Jónsdóttir)
  2. Bekkur (t.d. 6-A, athugið að einhver tölustafanna 1-5 verður að vera fremst í bekkjarheitinu til að unnt sé að greina hvaða árgangi nemandinn tilheyrir)
  3. Kyn (kvk=stelpa, kk=drengur)

Listinn verður notaður til að búa til úrtak allra nemenda sem er sent til tengiliðs ásamt viðeigandi þátttökukóðum. Þeir skólar sem nota Mentor geta greiðlega náð í þessar upplýsingar þar (sjá mynd 1). Þegar þessu er lokið þarf að vista skrána sem Excel Workbook skrá (með endinguna .xlsx).

Innflutningur á Excel lista

Mynd 1

Upplýsingarnar eru sendar inn sem viðhengi í tölvupósti á listar@skolapulsinn.is. Mikilvægt er að dálkarnir í excel-skjalinu séu í þeirri röð sem sýnd er á mynd 1. Þó dálkarnir í skjalinu verði að vera í ákveðinni röð mega raðirnar vera í hvaða röð sem er.

Ef einhver vandamál koma upp hafðu þá samband í síma 583-0700 eða á skolapulsinn@skolapulsinn.is.

3. Framkvæmd könnunar

Í byrjun apríl fær tengiliður Skólapúlsins sendan póst með lista yfir nemendur sem eiga að svara könnuninni. Í úrtakinu eru nemendur í 1. til 5. bekk. Í listanum eru nöfn nemenda og aðgangsorð þeirra ásamt QR kóða fyrir spjaldtölvur. Hægt er að klippa listann í ræmur og afhenda nemendum sitt nafn, aðgangsorð og QR kóða. Nemendur fara á yngri.skolapulsinn.is, slá inn aðgangsorðið og svara könnuninni. Hægt er að svara könnuninni í borðtölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma. Flestir nemendur ættu að geta svarað spurningunum á u.þ.b. 10 mínútum. Mælt er með því að fyrirlögnin fari fram um miðbik úrtaksmánaðarins og ljúki a.m.k. fimm dögum fyrir mánaðarmót. Ekki þurfa allir nemendur að svara á sama tíma. Hægt er að sæta lagi þegar færi gefst á skólatíma.

Athugaðu að kerfið birtir engar niðurstöður nema að tilskildu 80% svarhlutfalli úrtaksins hafi verið náð, annað getur gefið skakka mynd af nemendahópnum. Almennt ætti ekki að fjarlægja nemendur úr úrtaki sem tilheyra nemendahópnum nema að þeir skilji ekki spurningarnar vegna mjög alvarlegra þroskafrávika.

4. Ekki henda miðanum strax

Nemendur eiga ekki að henda miðanum fyrr en þeir hafa lokið við að svara könnuninni. Ef sambandið rofnar í miðri svörun er hægt að fara í aðra tölvu skrá sig aftur inn. Könnunin hefst þá á þeirri síðu sem var opin þegar að sambandið rofnaði. Ef að tafir eru á síðunni má svara könnuninni í minni hópum.

5. Næði til að svara í einrúmi

Nemandinn þarf að hafa næði til að svara könnuninni í einrúmi. Skjár tölvunnar sem hann situr við má ekki vera sýnilegur öðrum á meðan hann svarar. Mikilvægt er að nemendur hafi ekki áhrif á svörun þeirra sem sitja næst þeim.

6. Persónuupplýsingar

Vefkerfið hefur verið tilkynnt til Persónuverndar undir númerinu S5590. Engum persónuupplýsingum er safnað í Skólapúlsinum. Fullrar nafnleyndar er gætt þegar niðurstöður úr Skólapúlsinum eru birtar einstökum skólastjórnendum. Niðurstöður eru einungis birtar sem meðaltöl stórra hópa og þar sem engum persónuupplýsingum er safnað er ekki unnt að rekja svör einstakra einstaklinga aftur til þeirra.

7. Samband við Skólapúlsinn

Heimasíða Skólapúlsins er www.skolapulsinn.is. Tölvupóstur er sendur á skolapulsinn@skolapulsinn.is. Síminn á skrifstofunni er 583-0700.

*Upplýsingarnar úr nemendalistanum eru eingöngu notað til að búa til úrtak skólans. Þegar byrjað er að svara spurningalista er nafni nemandans sjálfkrafa eytt. Þegar búið er að svara spurningalista er  þátttökukóða nemandans einnig sjálfkrafa eytt. Þegar könnuninni er lokið er nöfnum og þátttökukóðum þeirra sem ekki hafa svarað einnig eytt.

Heimild:
McKenna, M. C., & Kear, D.J. (1990). Measuring attitude toward reading: A new tool for teachers. The reading Teacher, 43(9), 626-639.