Aðalsíða » Grunnskólar » Nemendakönnun 6. – 10. b.

Nemendakönnun 6. – 10. b.

Nemendakönnunin fyrir nemendur í 6. –  10. bekk fer fram í nokkrum 40 nemenda úrtökum sem dreift er samhverft yfir skólaárið þar sem fjöldi úrtaka fer eftir stærð hvers skóla fyrir sig. Nú er spurningalistinn á níu tungumálum: íslensku, sænsku, dönsku, pólsku, litháísku, filippeysku, úkraínsku, spænsku og ensku. Að auki er mögulegt að virkja talgervilsstuðning á íslensku, ensku, pólsku, dönsku, spænsku og sænsku á meðan að svörun fer fram.

Eftirfarandi þættir eru mældir í nemendakönnun Skólapúlsins:

1. Virkni nemenda í skólanum (32 spurningar)

1.1. Ánægja af lestri (6)
1.2. Þrautseigja í námi (4)
1.3. Áhugi á stærðfræði (4) 
1.4. Áhugi á náttúrufræði (4)
1.5. Trú á eigin vinnubrögð í námi (5)
1.6. Trú á eigin námsgetu (6)
1.7. Hlutfall nemenda með snjallsíma (1)
1.8. Símanotkun á skólatíma (2)

2. Líðan og heilsa (29 spurningar)

2.1. Sjálfsálit (6)
2.2. Stjórn á eigin lífi (5)
2.3. Vellíðan (6)
2.4. Einelti (6)
2.5. Tíðni eineltis (1)
2.6. Staðir eineltis (1)
2.7. Mataráskrift (4)

3. Skóla- og bekkjarandi (20 spurningar)

3.1. Samsömun við nemendahópinn (4)
3.2 Samband nemenda við kennara (5)
3.3. Agi í tímum (5)
3.4. Virk þátttaka í tímum (3) 
3.5. Tíðni leiðsagnarmats (3)

4. Opin svör (2)

4.1. Vinsamlegast lýstu því hvað þér finnst sérlega gott við skólann. (1)
4.2. Vinsamlegast lýstu því hvað þér þykir slæmt eða megi betur fara í skólanum þínum (1)

Valið á spurningunum byggist að mestu leyti á próffræðilega staðfestum kvörðum úr PISA (Programme for International Student Assessment) og HBSC (Health Behaviour in School-Aged Children) rannsóknunum. Valið er endurskoðað árlega að vori á samráðsfundi með notendum kerfisins.

 

Framkvæmd könnunar

1. Upplýsingar til foreldra og neitanir

Tengiliður Skólapúlsins tilkynnir foreldrum um þátttöku nemenda í Skólapúlsinum. Fylgt er reglum skólans um þátttöku nemenda í skoðanakönnunum þar sem að engum persónuupplýsingum er safnað. Skólapúlsinn mælir með að í upphafi árs sé sent út bréf í tölvupósti til foreldra/forráðamanna til upplýsingar um að skólinn hyggist leggja fyrir spurningalista með notkun Skólapúlsins. Hægt er að nálgast bréfið og prenta það út hér fyrir neðan. Æskilegt er að foreldrar séu upplýstir um verkefnið áður nemendalistinn er sendur inn. Skólinn sér um að þeir nemendendur sem ekki fá að taka þátt vegna neitunar foreldra séu ekki með í nemendalistanum sem sendur er inn í upphafi skólaársins. Ef foreldrar neita eftir að nemendalistinn hefur verið sendur inn er viðkomandi nemendakóða einfaldlega hent þegar hann berst skólanum.

Foreldrabréf nemendakönnunar (pdf)

Foreldrabréf nemendakönnunar (word)

Foreldrabréf nemendakönnunar á ensku (pdf)

Foreldrabréf nemendakönnunar á ensku (word)

Foreldrabréf nemendakönnunar á pólsku (pdf)

Foreldrabréf nemendakönnunar á pólsku (word)

1.1. Ath! Þessi útgáfa upplýsingabréfsins er ætluð þeim skólum sem kjósa að  afla einu sinni skriflegs samþykkis frá foreldrum þegar að nemandi hefur nám í skólanum. Skriflegt samþykki foreldra er ekki lagaleg skylda til að framkvæma kannanir Skólapúlsins:

Samþykkisbréf nemendakönnunar (word)

Samþykkisbréf nemendakönnunar (pdf)

2. Upplýsingar sem sendar eru til Skólapúlsins í upphafi árs:*

Þátttaka skólans í könnuninni er staðfest með innsendingu nemendalista. Listinn á að vera í einu Excelskjali án auðra raða. Excelskjalið á að innihalda 3 samliggjandi dálka með eftirfarandi titlum og í eftirfarandi röð:

  1. dálkur: Nemandi Nafn (t.d. Jóna Jónsdóttir)
  2. dálkur: Nemandi Bekkur (t.d. 4. bekkur H)
  3. dálkur: Nemandi Kyn (kvk eða stelpa – kk eða drengur –  kynsegin/annað eða autt**)

**ef kyn nemanda er kynsegin/annað má einnig skila auðri skráningu þar sem kerfið vistar einungis auða skráningu í þeim tilfellum til að tryggja nafnleynd svara. Frá hausti 2023 verður orðalag spurninga sniðið að kyni svarenda. Séu færri en 5 í einhverju kyni eru svör þeirra felld saman við stærri hóp til að gæta að nafnleynd.

Til að senda inn listann skráir tengiliður eða skólastjóri sig fyrst inn á sitt vefsvæði á síðunni skolapulsinn.is. Efst á vefsvæðinu er listi yfir þær kannanir sem viðkomandi skóli er skráður í. Smellt er á viðeigandi könnun til að skoða hana (sjá mynd 1).

Mynd 1. Listi yfir kannanir sem eru í gangi.

Á fyrstu síðu könnunar er hægt að velja lista af tölvunni (Excel skjalið) til að senda inn. Einnig er hægt að hlaða niður töflureiknisskjali sem nota má sem sniðmát til innsendingar. (sjá mynd 2).

 

 

 

 

Mynd 2: Listi sendur inn til forskoðunar.

Þá er listinn forskoðaður með því að smella á hnappinn „Skref 1: Forskoða lista“ og þá sýnir kerfið mögulegar villur og athugasemdir við listann (sjá mynd 3). Ef villur koma upp þarf að leiðrétta þær í listanum og senda hann aftur inn.

 

 

 

 

Mynd 3: Forskoðun lista.

Í hvert skipti sem nýr listi er sendur inn þarf að forskoða hann og villuprófa. Þegar engar villur koma upp er listann sendur inn með því að smella á hnappinn „Skref 2: Senda lista“ (sjá mynd 4).

 

 

 

 

Mynd 4. Endanlegur listi sendur inn til úrtaksgerðar.

Ef einhverjar spurningar vakna ekki hika við að hringja í síma 5830700 eða senda tölvupóst á skolapulsinn@skolapulsinn.is

3. Framkvæmd könnunar

Hvern mánuð fær tengiliður Skólapúlsins sendan póst með lista yfir nemendur sem eiga að svara könnuninni. Í úrtakinu eru nemendur í 6. til 10. bekk. Í listanum eru nöfn nemenda og aðgangsorð þeirra. Hægt er að klippa listann í ræmur og afhenda nemendum sitt nafn og aðgangsorð. Þeir fara á www.skolapulsinn.is, slá inn aðgangsorðið og svara könnuninni. Hægt er að svara könnuninni í borðtölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma. Flestir nemendur ættu að geta svarað spurningunum á u.þ.b. 15-20 mínútum en gefa ætti allt að 40 mínútur til að svara. Æskilegt er að allur hópurinn svari könnuninni í sömu vikunni ef mögulegt er, helst á sama degi. Mælt er með því að fyrirlögnin fari fram um miðbik úrtaksmánaðarins og ljúki a.m.k. fimm dögum fyrir mánaðarmót. Ekki þurfa allir nemendur að svara á sama tíma. Hægt er að sæta lagi þegar færi gefst á skólatíma.

Athugaðu að kerfið birtir engar niðurstöður nema að tilskildu 80% svarhlutfalli úrtaksins hafi verið náð, annað getur gefið skakka mynd af nemendahópnum. Almennt ætti ekki að fjarlægja nemendur úr úrtaki sem tilheyra nemendahópnum nema að þeir skilji ekki spurningarnar vegna mjög alvarlegra þroskafrávika. Kerfið síar sjálfkrafa frá óáreiðanleg svör þannig að það er allt í lagi að leyfa nemendum að spreyta sig ef þeir eiga einhverja möguleika á að svara.

Þegar nemendur skrá sig inní Skólapúlsinn sjá þeir skilaboðin hér fyrir neðan. Mikilvægt er að tengiliðurinn gangi úr skugga um að nemendur lesi textann og geri sér grein fyrir því sem í honum stendur.

———————————————–

Góðan dag

Velkomin(n) í Skólapúlsinn.
Takk fyrir að taka þátt.

Þessi könnun er lögð fyrir í grunnskólum um allt land.

Hér á eftir finnur þú spurningar um:

  • hvernig þér líður í skólanum
  • hvað þér finnst um skólann
  • hvernig þú lærir

Vinsamlega lestu hverja spurningu vandlega og svaraðu eins vel og þú getur. Þú átt að svara hverri spurningu með því að smella í reit. Síðustu spurningunum átt þú að svara skriflega.

Það eru ekki til nein „rétt“ eða „röng“ svör við spurningunum. Svörin þín eiga að vera þau svör sem eru „rétt“ fyrir þig.

Þú mátt biðja um aðstoð ef þú skilur ekki eitthvað eða ef þú ert ekki viss um hvernig á að svara einhverri spurningu.

Svör þín munu hjálpa skólastjórninni við að bæta skólastarfið. Unnið er úr svörunum þínum með því að telja alla saman sem svara og þannig fundnar út heildartölur og meðaltöl. Það er því ekki hægt að sjá hver svaraði hverju. Nafnið þitt er ekki geymt eftir að þú hefur svarað könnuninni.

Gefðu þér tíma til að hugsa vel um svör þín. Þú þarft ekki að taka þátt í könnuninni ef þú vilt það ekki.

————————————————-

4. Nýr þátttökukóði í upphafi könnunar

Eftir að nemendur hafa samþykkt þátttöku á forsíðu könnunarinnar verður þátttökukóðinn þeirra óvirkur og upp á skjáinn kemur nýr kóði sem nemendur eiga að skrá hjá sér. Nýi kóðinn er notaður til að komast inn í könnunina aftur ef sambandið rofnar í miðri svörun. Könnunin hefst þá á þeirri síðu sem var opin þegar að sambandið rofnaði. Ef að tafir eru á síðunni má svara könnuninni í minni hópum.

5. Næði til að svara í einrúmi

Nemandinn þarf að hafa næði til að svara könnuninni í einrúmi. Skjár tölvunnar sem hann situr við má ekki vera sýnilegur öðrum á meðan hann svarar. Mikilvægt er að nemendur hafi ekki áhrif á svörun þeirra sem sitja næst þeim.

6. Persónuupplýsingar

Vinnsla könnunarinnar uppfyllir skilyrði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónupplýsinga og er í samræmi við GDPR reglugerð Evrópuþingsins. Fjórar leiðir hafa verið þróaðar í því skyni:

✓ Öllum persónuupplýsingum er eytt áður en svörun hefst í nemendakönnun 6.-10. bekkjar
✓ Allar skeytasendingar eru dulkóðaðar (https:) sem dregur úr líkum á því að hægt sé að hlera
svörun um leið og hún á sér stað.
✓ Opin svör eru vistuð aðskilin frá öðrum svörum könnunarinnar sem kemur í veg fyrir að
upplýsingar sem koma fram í opnu svari geti á nokkurn hátt verið tengdar svörum við
fjölvalsspurningum í könnuninni.
✓ Notkun á vefkökum er takmörkuð, sjá nánar á www.visar.is undir Persónuverndarstefna.

Vísar rannsóknir, sem sér um framkvæmd könnunarinnar, er meðlimur ESOMAR, alþjóðasamtaka rannsóknafyrirtækja og vinna samkvæmt siðareglum þeirra. Nánari upplýsingar um öryggisráðstafanir má finna í persónuverndarstefnu á www.visar.is. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir með því að senda póst á personuvernd@visar.is.

7. Samband við Skólapúlsinn

Heimasíða Skólapúlsins er www.skolapulsinn.is. Tölvupóstur er sendur á skolapulsinn@skolapulsinn.is. Síminn á skrifstofunni er 5830700.

*Upplýsingarnar úr nemendalistanum eru eingöngu notaðar til að búa til líkindaúrtök skólans sem notuð eru í könnuninni. Þegar byrjað er að svara spurningalista er nafni nemandans sjálfkrafa eytt. Þegar búið er að svara spurningalista er  þátttökukóða nemandans einnig sjálfkrafa eytt. Þegar könnuninni er lokið er nöfnum og þátttökukóðum þeirra sem ekki hafa svarað einnig eytt.