Aðalsíða

Nemendalistar og nýjar foreldra- og starfsmannakannanir

16. ágúst, 2012

Skólapúlsinn hefur nú sitt fimmta starfsár og tími kominn til að senda inn nemendalista skólaársins 2012-2013. Leiðbeiningar um hvernig nemendalistinn er sendur í kerfið er að finna hér: http://www.skolapulsinn.is/um/?page_id=239

Þetta árið færir Skólapúlsinn út kvíarnar með samræmdum foreldra- og starfsmannakönnunum fyrir sjálfsmat skóla. Í fyrrahaust hófst vinna við að velja saman þau mælitæki og spurningar sem best hafa reynst í alþjóðlegum könnunum sem og í sambærilegum könnunum innanlands. Sérfræðingar frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri og Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar voru fengnir til ráðgjafar og kannanirnar forprófaðar síðastliðið vor í þremur skólum af ólíkri gerð og staðsetningu. Í forprófunum gekk vel að uppfylla skilyrði um 80% lágmarkssvarhlutfall í skólunum þremur. Við þökkum það m.a. nýjungum í Skólapúlsinum við fyrirlögnina svo sem innbyggðum tölvupóst- og sms áminningum ásamt hugbúnaði til að einfalda símaeftirfylgni í skólum.

Foreldrakönnunin fer fram í febrúar og mælir 41 þátt í fjórum flokkum. Um 20 mínútur tekur að svara foreldrakönnuninni fyrir eitt foreldri en um 10 mínútur á foreldri ef bæði eru skráð með tölvupóstfang hjá skólanum. Nánari upplýsingar um foreldrakönnunina er að finna hér: http://skolapulsinn.is/um/?page_id=1126

Starfsmannakönnunin fer fram í mars og mælir 20 þætti. Að auki eru starfsmenn sem stunda kennslu beðnir að gefa upplýsingar um átta þætti til viðbótar. Starfsmenn sem stunda kennslu eru um 20 mínútur að svara könnuninni en aðrir starfsmenn eru um 10 mínútur að svara. Nánari upplýsingar um starfsmannakönnunina er að finna hér: http://skolapulsinn.is/um/?page_id=1163

Sama gjald er fyrir nemendakönnun, foreldrakönnun og starfsmannakönnun. Gjald fyrir hverja gerð mælinga er 34 þús. fyrir skóla með færri en 240 nemendur en 53 þús. fyrir skóla með 240 nemendur eða fleiri. Hver skóli getur valið hvort hann kýs að taka þátt í einni, tveimur eða öllum þremur gerðum kannana á skólaárinu.

Skráning í kannanirnar fer fram við staðfestingu áskriftarsamnings Skólapúlsins fyrir skólaárið 2012-13, áskriftarsamningurinn mun birtast við fyrstu innskráningu á vefsvæði skólans hjá Skólapúlsinum. Ef um nýjan þátttökuskóla er að ræða þarf fyrst að skrá skólann á heimasíðu Skólapúlsins: http://www.skolapulsinn.is/um/?page_id=156