Hvers vegna er 90% öryggisbil í nemendakönnuninni en ekki t.d. 95%?
Svar: 90% öryggismörk urðu fyrir valinu vegna lítils afls gagnanna hjá stórum skólum eftir fyrstu mælingu vetrarins þar sem aðeins er tekið 40 nemenda úrtak og niðurstöður yfirfærðar á allan hópinn. Með 95% öryggismörkum þyrfti meiri mun á hópum til að munur yrði marktækur og því aukin hætta á að raunverulegur og mikilvægur munur væri talinn tölfræðilega ómarktækur.
Í félagsvísindum er stuðst við 95% mörkin þegar prófaðar eru tilgátur og menn vilja vera vissir um mun á hópum. Í rannsóknum í heilbrigðisvísindum er oft miðað við hærri öryggismörk (t.d. 99%) þar sem villuþáttum er þegar stjórnað og hægt að gera kröfu á meira afgerandi mun á milli hópa. Innra mat með Skólapúlsinum er hvorki tilgátumiðuð rannsókn né tilraun. Oft þegar verið er að meta hluti og þreifa fyrir sér með möguleg áhrif er stuðst við 90% mörkin. Jafnvel í sumum tilgátumiðuðum rannsóknum er 90% látið nægja þegar sýnt hefur verið fram á töluverð möguleg áhrif af villuþáttum. Það er þá sér í lagi þegar gerðar eru fleiri en ein mæling. Eins og er einmitt tilfellið í könnunum Skólapúlsins.