Aðalsíða

45% framhaldsskólanema hafa notað gervigreind í námi

25. nóvember, 2024

Framhaldsskólapúlsinn var lagður fyrir nemendur í 12 skólum í október síðastliðnum. Í apríl er ráðgert að aðrir 7 skólar leggi könnunina fyrir sína nemendur. Þátttökuskólar eru því alls 19 talsins þetta skólaárið og hafa þeir aldrei verið fleiri síðan Skólapúlsinn hóf fyrst að bjóða upp á nemendakönnun í framhaldsskólum fyrir ellefu árum.

Á vorfundi Skólapúlsins í maí var ákveðið að gera allnokkrar umbætur á Framhaldsskólapúlsinum. Spurningar um fjarveru voru felldar út, að undanskilinni spurningu um ástæður fjarveru, en á móti var tveimur spurningum um notkun gervigreindar í námi bætt við. Niðurstöður októberfyrirlagnarinnar voru á þá leið að 45% nemenda höfðu notað spjallmenni á borð við ChatGPT í námi. Þeir nemendur sem höfðu notað spjallmenni voru spurðir um tíðni notkunarinnar á síðustu 30 dögum. Var meðaltal skipta sem þeir höfðu notað spjallmenni 18,4.

Önnur uppfærsla á Framhaldsskólapúlsinum var sú að nú geta svarendur valið hvernig þeir vilja hafa orðfæri könnunarinnar, þ.e. hann, hún eða hán. Sjálfgefið orðlag miðast þó enn við tilgreint kyn nemanda í innsendum lista. Einnig fjölgaði tungumálum sem könnunin hefur verið þýdd á úr þremur í fimm. Nánar má lesa um Framhaldsskólapúlsinn með því að smella hér.