Aðalsíða

Samantekt frá vorfundi 2019

24. júní, 2019

Á nýafstöðnum vorfundi var innihald og framkvæmd á öllum könnunum Skólapúlsins tekin til umræðu. Gagnlegar ábendingar komu fram á fundinum sem hafa þegar verið teknar til framkvæmda s.s. sérdálkur á yfirlitssíðu sem sýnir breytingu frá síðasta þátttökuári. Á næsta skólaári koma einnig til framkvæmda nokkrar breytingar sem rekja má til umræðu sem fram fór á fundinum:

  1. Allur munur verður litakóðaður. Grænn munur mun tákna hagstæða breytingu og rauður litur mun tákna óhagstæða breytingu burtséð frá því hvort munurinn er lítill eða mikill. Tölfræðilega markækur munur mun áfram verða feitletraður og stjörnumerktur.
  2. Almenni hluti starfsmannakannana í leik- og grunnskólum verður samræmdur við nýja almenna starfsmannakönnun sem við köllum Starfsmannapúlsinn (sjá nánar hér: http://visar.is/?page_id=160). Kennarahluti hvorrar könnunar fyrir sig helst þó óbreyttur. Fjöldi spurninga mun haldast nánast óbreyttur þó matsþáttum fjölgi.
  3. Vinna hefst við að endurskoða kvarða sem notaðir eru í nemendakönnun 6. – 10. bekkjar. Sú vinna mun byggjast á bókinni Beyond Test Scores e. Jack Schneider (sjá nánar hér: https://skolapulsinn.is/um/?p=2653). Í fyrstu munum við einbeita okkur að mælitækjum sem snúa að náms- og kennsluaðferðum. Við höfum því ákveða að  forprófa kvarða um tíðni leiðsagnarmats (endurgjöf til nemenda) sem notaður var í spurningalista PISA 2012 og notaður hefur verið með framhaldskólanemum með góðum árangri á undanförnum árum. Til að forðast lengingu á spurningalista 6. – 10. bekkjar var ákveðið að fella út spurningar sem snúa að mikilvægi heimavinnu í náminu.
  4. Í fámennum skólum verða upplýsingar um árganga felldar saman svo mögulegt sé að brjóta niðurstöður niður eftir árgögnum þó að fáir nemendur/börn séu í einstökum árgöngum.
  5. Vakin verður athygli á hjálparsíma Rauða krossins 1717 og netspjallsins 1717.is við lok nemendakönnunar 6. – 10. bekkjar og nemendakönnunar framhaldsskólanema.

Ýmsar smávægilegar orðalagsbreytingar á spurningum og fyrirmælum munu einnig koma til framkvæmda eftir ábendingar sem komu fram á fundinum. Ef spurningar vakna um einstakar breytingar ekki hika við að hafa samband með því að senda tölvupóst á skolapulsinn@skolapulsinn.is eða hringja í síma 5830700.