Aðalsíða

Breytingar á könnun í yngri bekkjum grunnskóla

24. mars, 2023

Skólapúlsinn hefur boðið upp á nemendakönnun í yngri bekkjum grunnskóla frá skólaárinu 2017/2018. Þar er áhersla lögð á að mæla ánægju af lestri, ánægju af skólanum og vellíðan í skólanum. Á vorfundi notenda Skólapúlsins árið 2022 var sú ákvörðun tekin að hætta að leggja könnunina fyrir nemendur í 1. bekk þar sem áreiðanleikamælingar sýndu að svör þeirra voru síður áreiðanleg en svör eldri nemenda. Enn fremur var ákveðið að framkvæma mælinguna í október fremur en í apríl. Þessar breytingar gengu í gegn haustið 2022 og fór nemendakönnun í 2. – 5. bekk fram í fyrsta sinn í október síðastliðinn. Langtímameðaltölin í niðurstöðuskýrslum voru uppreiknuð aftur í tímann án 1. bekkjar til að gera þau samanburðarhæf við eldri niðurstöður. Áhuga vakti að nýjustu niðurstöður á landsvísu voru lítilsháttar betri á öllum þáttum. Líklegt þykir að skýringuna megi að hluta til rekja til þess að könnunin fer nú fram í fyrsta skipti á fyrri hluta skólaárins.