Aðalsíða » Grunnskólar » Aðferðafræði foreldrakönnunar

Aðferðafræði foreldrakönnunar

Hvert barn í skólanum á einn eða tvo foreldra/forsjáraðila sem skráðir eru með netföng og símanúmer hjá skólanum. Búið er til lagskipt líkindaúrtak 120 nemenda þar sem gengið er úr skugga um að nemendur af öllum aldursstigum og  báðum kynjum eigi fulltrúa. Jafnframt er gengið úr skugga um að systkini séu ekki í úrtakinu. Þegar þessu er lokið eru búnir til 120-240 þátttökukóðar fyrir foreldra allra barna í úrtakinu. Einn spurningalisti fylgir hverju barni í úrtakinu. Þátttökukóði einstæðra foreldra gefur aðgang að spurningalistanum í heild sinni. Ef báðir foreldrar barns eru skráðir með netfang er lista barnsins skipt í tvennt og þátttökukóði annars foreldisins gengur að öðrum helmingnum og þátttökukóði hins foreldrisins gengur að hinum helmingnum. Helmingunum er deilt á móður og föður af handahófi.

Ef einungis annað foreldri barns sér um samskipti við skólann á að fjarlægja nafn óvirka foreldrisins úr listanum. Þar með fær það foreldri sem sér um samskipti við skólann allan spurningalistann.

Í tölvupósti til beggja foreldra er skýrt tekið fram að öðru foreldrinu eða báðum í sameiningu sé frjálst að svara báðum hlutum ef þannig stendur á. Í tölvupóstinum er tekið fram kyn og bekkur barnsins sem um ræðir og foreldrarnir eru beðnir að hafa það barn í huga þegar þeir svara spurningalistanum. Í fyrstu spurningu beggja helminga eru foreldrar beðnir að gefa til kynna hver svarar. Með þessu móti koma foreldrar/forsjáraðilar úrtaksins skoðunum um sitt barn á framfæri.

Forprófun í þremur skólum vorið 2012 leiddi í ljós að með þessu móti eru skoðanir mæðra, feðra og beggja foreldra í sameiningu komið á framfæri á sanngjarnan hátt sem leiddi til mun hærra svarhlutfalls og meiri þátttöku feðra en þekkst hefur í foreldrakönnunum til þessa.