Aðalsíða » Leikskólar » Könnun fyrir leikskólabörn

Könnun fyrir leikskólabörn

Til stóð að könnun fyrir leikskólabörn á elstu deild leikskóla færi fram í apríl á hverju ári. Því miður sýndu niðurstöður úr forprófi í febrúar 2022 ófullnægjandi áreiðanleika og réttmæti þeirra mælitækja sem til stóð að nota. Því hefur frekari þróun og framkvæmd á könnun fyrir leikskólabörn verið frestað um óákveðinn tíma.

Könnunin mælir gæði leikskólastarfs að mati leikskólabarna, líðan, sjálfræði, félagstengsl og hæfni. Spurningarnar um gæði leikskólastarfs voru búnar til í samstarfi Skólapúlsins við fræðimenn innan Háskóla Íslands og fagfólk í leikskólastarfi hjá leikskólum Garðabæjar. Gerð mælitækisins fylgdi ströngu þróunarferli þar sem fyrirliggjandi rannsóknir voru rýndar spurningar mótaðar og forprófaðar í nánu samstarfi við fagfólk. Spurningarnar eru að mestu byggðar á sjálfræðiskenningu Deci og Ryan (self-determination theory; 2000) og niðurstöðum úr rannsókn Jóhönnu Einarsdóttur á gæðum leikskólastarfs (2005). Íslenska útgáfan var forprófuð og greind þar sem fram fór leitandi og staðfestandi þáttagreining. Spurningunum var fækkað og þær aðlagaðar að íslensku skólastarfi. Mælitækin voru einnig aðlöguð að fyrirlögn með myndaaðstoð og talgervli. Undirbúningsmæling (e. pilot) könnunarinnar var framkvæmd haustið 2021 ásamt forprófi í öllum leikskólum Garðabæjar í febrúar 2022. Tölurnar úr fyrstu fyrirlögn verða notaðar til viðmiðunar og því mun talan 5 á kvarðanum standa fyrir dæmigert leikskólabarn í elstu deild leikskóla næstu 5-10 ár héðan í frá.

Könnunin mun innihalda allt að 21 spurningu sem meta fjóra þætti

  1. Almenn líðan í leikskólanum (allt að 4 spurningar)
  2. Sjálfræði í leikskólanum (allt að 5 spurningar)
  3. Félagstengsl í leikskólanum (allt að 7 spurningar)
  4. Hæfni í leikskólanum (allt að 5 spurningar)

Valið á spurningum er endurskoðað árlega að vori á samráðsfundi með notendum kerfisins.

Framkvæmd könnunar

1. Upplýsingar til foreldra og neitanir

Tengiliður Skólapúlsins tilkynnir foreldrum um þátttöku barna í Skólapúlsinum. Fylgt er reglum leikskólans um þátttöku barna í könnunum þar sem að engum persónuupplýsingum er safnað. Skólapúlsinn mælir með að sent sé út bréf í tölvupósti til foreldra/forráðamanna til upplýsingar um að skólinn hyggist leggja fyrir spurningalista með notkun Skólapúlsins. Hægt er að nálgast bréfið og prenta það út hér fyrir neðan. Þar sem engin nöfn eru send til Skólapúlsins er ekki nauðsynlegt að senda upplýsingabréfið út áður en upplýsingar um fjölda barna er sendur inn.

Foreldrabréf fyrir foreldra elsta árgangs leikskóla (PDF)

Foreldrabréf fyrir foreldra elsta árgangs leikskóla (doc)

2. Upplýsingar sem sendar eru til Skólapúlsins í upphafi árs:*

Þátttaka leikskólans í könnuninni er staðfest með innsendingu þátttakendalista. Listinn á að vera í einu Excelskjali án auðra raða. Excelskjalið á að innihalda 2 samliggjandi dálka með eftirfarandi titlum og í eftirfarandi röð:

  1. Heiti elstu deilda/deildar
  2. Kyn (kvk eða stelpa, kk eða drengur, kynsegin/annað eða autt**)

**Ef kyn barna er kynsegin/annað má einnig skila auðri skráningu þar sem kerfið vistar einungis auða skráningu í þeim tilfellum til að tryggja nafnleynd svara.

Til að senda inn listann skráir tengiliður eða leikskólastjóri sig fyrst inn á sitt vefsvæði á síðunni skolapulsinn.is. Efst á vefsvæðinu er listi yfir þær kannanir sem viðkomandi skóli er skráður í. Smellt er á viðeigandi könnun til að skoða hana (sjá mynd 1).


Mynd 1. Listi yfir kannanir sem eru í gangi.

Á fyrstu síðu könnunar er hægt að velja lista af tölvunni (Excel skjalið) til að senda inn. Einnig er hægt að hlaða niður töflureiknisskjali sem nota má sem sniðmát til innsendingar (sjá mynd 2).

Mynd 2: Listi sendur inn til forskoðunar.

Þá er listinn forskoðaður með því að smella á hnappinn „Skref 1: Forskoða lista“ og þá sýnir kerfið mögulegar villur og athugasemdir við listann (sjá mynd 3). Ef villur koma upp þarf að leiðrétta þær í listanum og senda hann aftur inn.

Mynd 3: Forskoðun athugasemda við listann.

Í hvert skipti sem nýr listi er sendur inn þarf að forskoða hann og villuprófa. Þegar engar villur koma upp er listann sendur inn með því að smella á hnappinn „Skref 2: Senda lista“ (sjá mynd 4).

Mynd 4. Endanlegur listi sendur til úrtaksgerðar.

Ef einhverjar spurningar vakna ekki hika við að hringja í síma 583-0700 eða senda tölvupóst á skolapulsinn@skolapulsinn.is.

3. Framkvæmd könnunar

Í byrjun apríl fær tengiliður Skólapúlsins sendan póst með lista yfir börnin sem eiga að svara könnuninni. Í úrtakinu eru börn af elstu deild leikskólans. Í listanum eru upplýsingar um kyn og deild barnanna og aðgangsorð þeirra ásamt QR kóða fyrir spjaldtölvur. Hægt er að klippa listann í ræmur og afhenda viðeigandi aðgangsorð og QR kóða. Börnin fara á síðuna born.leikskolapulsinn.is , slá inn aðgangsorðið og svara könnuninni. Handhægast er að skanna QR kóðann með spjaldtölvu og afhenda barninu en þá opnast könnunin sjálfvirkt. Hægt er að svara könnuninni í borðtölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma. Flest börn ættu að geta svarað spurningunum á u.þ.b. 10 mínútum. Mælt er með því að fyrirlögnin fari fram um miðbik úrtaksmánaðarins og ljúki a.m.k. fimm dögum fyrir mánaðarmót. Ekki þurfa öll börn að svara á sama tíma. Hægt er að sæta lagi þegar færi gefst innan dvalartíma barnsins. Forprófun spurningalistans leiddi í ljós að hentugast var að leggja könnunina eftir hádegismatinn og fyrir síðdegishressingu.

Athugaðu að kerfið birtir engar niðurstöður nema að tilskildu 80% svarhlutfalli úrtaksins hafi verið náð, annað getur gefið skakka mynd af barnahópnum. Almennt ætti ekki að fjarlægja börn úr úrtaki sem tilheyra barnahópnum nema að þau skilji ekki spurningarnar vegna mjög alvarlegra þroskafrávika.

4. Ekki henda miðanum strax

Börnin eiga ekki að henda miðanum fyrr en þeir hafa lokið við að svara könnuninni. Ef sambandið rofnar í miðri svörun er hægt að fara í aðra tölvu skrá sig aftur inn. Könnunin hefst þá á þeirri síðu sem var opin þegar að sambandið rofnaði. Ef að tafir eru á síðunni má svara könnuninni í minni hópum.

5. Næði til að svara í einrúmi (með stuðningi ef þarf)

Barnið þarf að hafa næði til að svara könnuninni. Skjár tölvunnar sem þau sitja við má ekki vera sýnilegur öðrum börnum á meðan þau svara. Gert er ráð fyrir að kennari/starfsmaður aðstoði barn með að skilja spurningarnar.

6. Persónuupplýsingar

Engum persónuupplýsingum er safnað í Skólapúlsinum og í þessari könnun eru jafnframt engar persónuupplýsingar unnar. Fullrar nafnleyndar er gætt þegar niðurstöður úr Skólapúlsinum eru birtar einstökum skólastjórnendum. Niðurstöður eru einungis birtar sem meðaltöl stórra hópa og þar sem engum persónuupplýsingum er safnað er ekki unnt að rekja svör einstakra einstaklinga aftur til þeirra.

7. Samband við Skólapúlsinn

Heimasíða Skólapúlsins er www.skolapulsinn.is. Tölvupóstur er sendur á skolapulsinn@skolapulsinn.is. Síminn á skrifstofunni er 583-0700.

*Þegar búið er að svara spurningalista er  þátttökukóða barnsins sjálfkrafa eytt. Þegar könnuninni er lokið er þátttökukóðum þeirra sem ekki hafa svarað einnig eytt.

Heimildir

Johanna Einarsdottir (2005) We Can Decide What to Play! Children’s
Perception of Quality in an Icelandic Playschool, Early Education and Development, 16:4, 469-488,
DOI: 10.1207/s15566935eed1604_7

Ryan, R. M., & Deci, E. L. (2000). Self-determination theory and the facilitation of intrinsic motivation, social development, and well-being. American Psychologist, 55(1), 68-78. ://000085290800007