Aðalsíða » Framhaldsskólar » Nemendakönnun

Nemendakönnun

Skólapúlsinn framkvæmir samræmda könnun meðal framhaldsskólanema (staðnema/dagskólanema) í október og apríl á hverju skólaári. Þátttökuskólar velja þá fyrirlögn sem hentar skólastarfinu betur.

Könnunin er á íslensku, ensku og pólsku og hægt er að virkja talgervil á meðan á svörun stendur. Dregið er í að lágmarki 120 nemenda lagskipt líkindaúrtök í hverjum skóla en heildarniðurstöður eru vegnar eftir heildarfjölda í hverjum skóla. Könnunin var þróuð í samstarfi við Landlæknisembættið og Flensborgarskólann í Hafnarfirði og var fyrst lögð fyrir nemendur skólaárið 2013-2014. Könnunin miðar að því að gera framhaldsskólum mögulegt að meta stöðu og árangur af því þróunarstarfi sem snýr að líðan, námsumhverfi, virkni og skólabrag. Niðurstöður könnunarinnar birtast í nafnlausum samanburði við aðra framhaldsskóla á aðgangi skólans hjá Skólapúlsinum. Þannig fá skólar góða mynd af stöðu sinni á landsvísu og sparar stjórnendum bæði tíma og fyrirhöfn við framkvæmd innra mats á skólastarfinu.

Eftirfarandi þættir eru mældir í nemendakönnun Framhaldsskólapúlsins:

1. Námsumhverfi (30 spurningar)

1.1. Viðhorf og hollusta gagnvart skólanum (4)
1.2. Samsömun við nemendahópinn (7)
1.3. Stuðningur kennara við nemendur (4)
1.4. Virk þátttaka nemenda í tímum (4)
1.5. Tíðni leiðsagnarmats (endurgjöf til nemenda) (4)
1.6. Hvatning til ígrundunar (vitsmunaleg örvun) (9)

2. Virkni í námi (21 spurning)

2.1. Námsáhugi (4)
2.2. Vinnulag í námi (9)
2.3. Fjarvera: Seinkomur í tíma (1)
2.4. Fjarvera: Skróp í tíma (1)
2.5. Fjarvera án leyfis heilan dag (1)
2.6. Ástæður fjarveru (1)
2.7. Formlegar skyldur í dæmigerðri viku: Skólinn, heimanám, launuð vinna og tómstundir (4)

3. Líðan (48 spurningar)

3.1. Vellíðan (6)
3.2. Hamingja (1)
3.3. Sjálfsálit (9)
3.4. Stjórn á eigin lífi (7)
3.5. Þunglyndi (6)
3.6. Kvíði (6)
3.7. Svefnleysi (1)
3.8. Ástæður svefnleysis (1)
3.9. Einelti (5)
3.10 Áreitni og ofbeldi (6)

4. Opin svör (4 spurningar)

4.1. Mat á líðan (1)
4.2. Kennslumat (1)
4.3. Lýstu því hvað þér þykir gott við skólann þinn (1)
4.4. Lýstu því hvað þér þykir slæmt við skólann þinn (1)

Valið á spurningunum sem þættirnir innihalda byggir að mestu á rannsóknum á íslenskum PISA gögnunum og kvörðum frá Námsmatsstofnun og HBSC (Health Behaviour in School-Aged Children) rannsókninni sem er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og Lýðheilsustöðvar. Valið er endurskoðað árlega að vori á samráðsfundi með notendum kerfisins.

Hægt er að svara könnuninni í tölvu, spjaldtölvu eða snjallsíma og tekur um 10-15 mínútur að svara. Strax og könnun lýkur eru niðurstöður birtar á læstu vefsvæði skólans og greindar eftir loknum einingafjölda og kyni nemenda með samanburði við alla aðra skóla sem taka þátt. Þær eru birtar í formi línu-, súlu- og punktarita ásamt marktektarprófum og svörum við opnum spurningum. Niðurstöðurnar gefa skýrar vísbendingar um þróun í skólanum og stöðu nemendahópsins hverju sinni á lykilþáttum um líðan og skólabrag. Hægt er að skoða niðurstöðurnar á netinu og deila þeim þar eða taka þær út í pdf skjali og senda sem viðhengi. Einnig er hægt að flytja út einstakar myndir og birta í Powerpoint eða Word. Nemendur sem eiga erfitt með að lesa spurningarnar eiga kost á að láta talgervil lesa þær fyrir sig.

Hönnun Skólapúlsins tekur mið af því að hver skóli er í stöðugri þróun og kennarar og nemendur hafa takmarkaðan tíma til að sinna innra mati. Kerfið er einfalt í notkun og skipulagt þannig að mælingarnar hafi sem minnst áhrif á daglegt starf nemenda og kennara. Það getur leyst af hólmi stakar kannanir og virkar sem mikilvæg upplýsingaveita í innra mati skólans. Mikil hagræðing er í notkun kerfisins þar sem framkvæmd, greining niðurstaðna og birting þeirra eru sjálfvirk.

Innifalið í áskrift er aðstoð í síma og í gegnum tölvupóst við notkun kerfisins og túlkun niðurstaðna.

Allar nánari upplýsingar um verð og skráningu eru í síma 583-0700.

Leiðbeiningar um framkvæmd

Hér fyrir neðan eru leiðbeiningar í 7 skrefum sem lýsa því hvað þarf að gera til að taka þátt í könnuninni.

1. Tilkynning um fyrirhugaða könnun.

Áður en könnunin fer fram þarf tengiliður Skólapúlsins í skólanum að tilkynna öllum foreldrum og nemendum um fyrirhugaða könnun. Mælst er til að þeir nemendur sem ekki mega (nemendur yngri en 18 ára) eða vilja lenda í úrtaki könnunarinnar fái eina viku til að hafna þátttöku. Tilkynningin fer fram í tölvupósti með stöðluðu bréfi sem finna má hér fyrir neðan. Að þessu loknu er nemendalisti skólans sendur til Skólapúlsins án þeirra nafna sem ekki mega lenda í úrtaki könnunarinnar.

Upplysingabréf framhaldsskólapúlsins (pdf)

Upplýsingabréf framhaldskólapúlsins (word)

1.1. Ath! Þessi útgáfa upplýsingabréfsins er ætluð þeim skólum sem kjósa að  afla einu sinni skriflegs samþykkis frá foreldrum þegar að nemandi hefur nám í skólanum. Skriflegt samþykki foreldra er ekki lagaleg skylda til að framkvæma kannanir Skólapúlsins:

Samþykkisbréf framhaldsskólapúlsins (pdf)

Samþykkisbréf framhaldsskólapúlsins (word)

2. Innsending nemendalista

Þátttaka skólans í könnuninni er staðfest með innsendingu nemendalistans. Tengiliður Skólapúlsins í viðkomandi skóla sendir inn listann. Athugið að listann á að senda í einu Excel skjali án auðra raða. Könnun nær eingöngu til staðnema/dagskólanema og því eiga upplýsingar um þá sem eru í algjöru fjarnámi ekki að vera í skjalinu. Excelskjalið þarf að innihalda 6 dálka með eftirfarandi titlum og í eftirfarandi röð:

  1. Fullt nafn (t.d. Jóna Jónsdóttir)
  2. Fjöldi lokinna eininga (feininga)
  3. Kyn (kvk eða stelpa, kk eða drengur, kynsegin/annað eða autt**)
  4. Fæðingarár (t.d. 2004)
  5. Netfang
  6. Farsímanúmer

**ef kyn nemanda er kynsegin/annað má einnig skila auðri skráningu þar sem kerfið vistar einungis auða skráningu í þeim tilfellum til að tryggja nafnleynd svara.

Til að senda inn listann skráir tengiliður sig fyrst inn á vefsvæði skólans á síðunni skolapulsinn.is. Efst á vefsvæðinu er listi yfir þær kannanir sem skólinn er skráður í. Smellt er á viðeigandi könnun til að skoða hana (sjá mynd 1).

Mynd 1. Listi yfir kannanir sem eru í gangi.

Mynd 1. Listi yfir kannanir sem eru í gangi.

Mynd 2: Listi sendur inn til forskoðunar.

Mynd 2: Listi sendur inn til forskoðunar.

Á fyrstu síðu könnunar er hægt að velja lista af tölvunni (Excel skjalið) til að senda inn. Hægt er að hlaða niður dæmi af töflureiknisskjali sem nota má til innsendingar (sjá mynd 2).

Þá er listinn forskoðaður með því að smella á hnappinn „Skref 1: Forskoða lista“ og þá sýnir kerfið mögulegar villur og athugasemdir við listann (sjá mynd 3). Ef villur koma upp þarf að leiðrétta þær í listanum og senda hann aftur inn.

 

Mynd 3: Forskoðun lista.

Í hvert skipti sem nýr listi er sendur inn þarf að forskoða hann og villuprófa. Þegar engar villur koma upp er listann sendur inn með því að smella á hnappinn „Skref 2: Senda lista“ (sjá mynd 4).

Mynd 4. Endanlegur listi sendur inn til úrtaksgerðar.

Ef einhverjar spurningar vakna ekki hika við að hringja í síma 5830700 eða senda tölvupóst á skolapulsinn@skolapulsinn.is

3. Framkvæmd könnunar

Í fyrstu viku úrtaksmánaðar fá nemendur sendan tölvupóst og SMS með tengli á könnunina. Í annarri viku mánaðarins eru að auki send út raddskilaboð til þeirra sem enn eiga eftir að svara. Forprófun hefur sýnt að einungis um 20% nemenda svarar könnuninni við að fá sendan tölvupóst og SMS. Því er nauðsynlegt að afhenda kóðana beint til nemenda og gefa þeim færi á að svara á skólatíma til að ná 80% svarhlutfalli.

Um miðbik annarrar viku fær tengiliður Skólapúlsins sendan tölvupóst með aðgangi að lista yfir nemendur sem eiga eftir að svara könnuninni. Í úrtakinu eru nemendur af öllum námsárum (ákvarðað af loknum einingafjölda) og af báðum kynjum. Í listanum eru nöfn nemenda og aðgangsorð þeirra ásamt QR kóða. Hægt er að klippa listann í ræmur og afhenda nemendum sitt nafn og aðgangsorð. Þeir fara á frh.skolapulsinn.is, slá inn aðgangsorðið og svara könnuninni.

Á fyrstu síðu könnunarinnar fá nemendur úthlutað nýjum nafnlausum þátttökukóða. Nauðsynlegt er fyrir nemendur að skrifa nýja nafnlausa þátttökukóðann hjá sér. Án kóðans er enginn leið að opna könnunina aftur. Flestir nemendur ættu að geta svarað spurningunum á u.þ.b. 15-20 mínútum en gefa ætti allt að 40 mínútur til að svara. Mælt er með því að fyrirlögnin fari fram um miðbik úrtaksmánaðarins og ljúki a.m.k. fimm dögum fyrir mánaðarmót. Ekki þurfa allir nemendur að svara á sama tíma. Hægt er að sæta lagi þegar færi gefst á skólatíma.

Athugaðu að kerfið birtir engar niðurstöður nema að tilskildu 80% svarhlutfalli úrtaksins hafi verið náð, annað getur gefið skakka mynd af nemendahópnum. Almennt ætti ekki að fjarlægja nemendur úr úrtaki sem tilheyra nemendahópnum nema að þeir skilji ekki spurningarnar vegna mjög alvarlegra þroskafrávika.

4. Nýr þátttökukóði í upphafi könnunar

Eftir að nemendur hafa samþykkt þátttöku á forsíðu könnunarinnar verður þátttökukóðinn þeirra óvirkur og upp á skjáinn kemur nýr kóði sem nemendur eiga að skrá hjá sér. Nýji kóðinn er notaður til að komast inní könnunina aftur ef sambandið rofnar í miðri svörun. Könnunin hefst þá á þeirri síðu sem var opin þegar að sambandið rofnaði. Ef að tafir eru á síðunni má svara könnuninni í minni hópum.

5. Næði til að svara í einrúmi

Nemandinn þarf að hafa næði til að svara könnuninni í einrúmi. Skjár tölvunnar sem hann situr við má ekki vera sýnilegur öðrum á meðan hann svarar. Mikilvægt er að nemendur hafi ekki áhrif á svörun þeirra sem sitja næst þeim.

6. Eftirfylgni

Á vefsvæði skólans er hægt að fylgjast með svarhlutfalli könnunarinnar. Upplýsingar um þá nemendur sem svarað hafa könnuninni hverfa jafnóðum og þeir byrja að svara. Niðurstöður eru ekki birtar ef svarhlutfall er lægra en 60%. Æskilegt er að ná 80% svarhlutfalli.

7. Persónuupplýsingar

Vinnsla könnunarinnar uppfyllir skilyrði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónupplýsinga og er í samræmi við GDPR reglugerð Evrópuþingsins. Fjórar leiðir hafa verið þróaðar í því skyni:

✓ Öllum persónuupplýsingum er eytt áður en svörun hefst nema að svarandi biðji sérstaklega
um að vera minntur á ef hann gleymir að ljúka könnuninni. Í slíkum tilfellum er
persónuupplýsingum sjálfkrafa eytt strax að lokinni svörun.
✓ Allar skeytasendingar eru dulkóðaðar (https:) sem dregur úr líkum á því að hægt sé að hlera
svörun um leið og hún á sér stað.
✓ Opin svör eru vistuð aðskilin frá öðrum svörum könnunarinnar sem kemur í veg fyrir að
upplýsingar sem koma fram í opnu svari geti á nokkurn hátt verið tengdar svörum við
fjölvalsspurningum í könnuninni.
✓ Notkun á vefkökum er takmörkuð, sjá nánar á www.visar.is undir Persónuverndarstefna.

Vísar rannsóknir, sem sér um framkvæmd könnunarinnar, er meðlimur ESOMAR, alþjóðasamtaka rannsóknafyrirtækja og vinna samkvæmt siðareglum þeirra. Nánari upplýsingar um öryggisráðstafanir má finna í persónuverndarstefnu á www.visar.is. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir með því að senda póst á personuvernd@visar.is.