Aðalsíða

Mikill kynjamunur í síun svara

26. október, 2012

Í Skólapúlsinum eru innbyggðar svarsíur sem greina frá nemendur sem annars vegar svara of fljótt til að hafa náð að lesa spurningarnar á viðkomandi síðu og hins vegar þá sem svara í mótsögn við sjálfa sig. Slík svör eru ekki tekin með í úrvinnslu gagna. Á síðasta skólaári, 2011-12 féllu 4,1% nemenda á svarsíum og voru svör þeirra ekki talin með. Mikill kynjamunur kemur fram en 5,6% drengja á móti 2,5% stúlkna falla á svarsíunum. Drengir á unglingastigi eru tvöfalt líklegri til að falla á svarsíum en drengir á miðstigi en meðal stúlkna eru nokkuð jafnar líkur óháð aldri.

Síun svara er ætlað að bæta áreiðanleika og réttmæti matsþáttanna með því að hafna svörum nemenda sem taka spurningalistann ekki alvarlega. Meðaltöl skólanna verða nákvæmari þegar ekki eru reiknuð með svör nemanda sem eru uppvísir að því að svara ekki eftir innihaldi spurninganna. Benda má á að þess háttar síun er aðeins möguleg vegna þess að könnunin er lögð fyrir í gegnum tölvu. Nánar má lesa um svarsíur Skólapúlsins hér.