Ánægja af lestri hefur minnkað hjá grunnskólanemendum síðastliðinn áratug, mest á miðstigi

Skólapúlsinn hefur um margra ára skeið mælt ánægju af lestri í nemendakönnunum sínum, bæði í 2. – 5. bekk og 6. – 10. bekk. Velflestir grunnskólar landsins, eða yfir 130 talsins, leggja nemendakönnun eldri bekkja fyrir nemendur sína með reglubundnum hætti og hefur könnunin fyrir margt löngu fest sig í sessi sem mikilvæg stoð í innra mati. Í könnuninni er m.a. metin ánægja af lestri og er hún mæld á 9 stiga mælikvarða, þ.e. 0-9 stig.

Nemendakönnun fyrir yngri nemendur var fyrst lögð fyrir árið 2018 og styðst við myndræna framsetningu og talgervla á sjö tungumálum (sjá mynd 1). Sú könnun veitir skólastjórnendum góða tilfinningu fyrir m.a. viðhorfi yngstu nemendanna til lestrar.

Mynd 1: Skjáskot úr nemendakönnun 2. – 5. bekkjar.

Þegar langtímagögn eru rýnd sést að lestraráhugi yngri bekkja hefur ekki dalað að ráði á undanförnum árum (sjá mynd 2). Annað er uppi á teningnum á mið og elsta stigi (sjá mynd 3) en þar mældist meðaltal áhuga á lestri 4,8 stig skólaárið 2017-2018 en 4,3 stig skólaárið 2025-2026. Mest hefur áhugi á lestri dalað á miðstigi þar sem minnkunin er tvöfalt meiri en á elsta stigi grunnskóla (sjá mynd 4).

Mynd 2: Þróun ánægju af lestri – heildarmeðaltal 2. – 5. bekkjar
Mynd 3: Þróun ánægju af lestri – heildarmeðaltal 6. – 10. bekkjar
Mynd 4: Þróun ánægju af lestri í 6. – 10. bekk á níu ára tímabili

Mæling ánægju af lestri er sett fram á staðalníukvarða þar sem munur upp á 0,5 stig er lítill munur, munur upp á 1,0 stig er töluverður munur og munur upp á 1,5 stig eða meira er mikill munur.

Háskólanemendur í menntavísindum geta fengið aðgang að heildargögnum úr könnunum Skólapúlsins í tengslum við ritun lokaverkefna eða fræðilegra greina. Dæmi um slíkar rannsóknir má nálgast hér og hér.